Páfugl (Pavo cristatus) er ein af tveimur tegundum páfugla af ættkvíslinni Pavo sem er innan ættar Phasianidae eða fasanaættar. Hin tegundin er grænpáfuglinn (P. muticus) sem lifir í Indókína. Páfuglinn, sem einnig er nefndur indverski páfuglinn (e. indian peafowl), er þjóðarfugl Indlands. Þar þykir hann mikil gersemi og var oft hafður til skrauts í görðum heldra fólks. Hann var einnig fluttur til Evrópu og Bandaríkjanna þar sem hann er mjög algengur. Stélfjaðrir karlfuglanna eru með þeim mögnuðustu sem þekkjast meðal fugla og eitt gleggsta dæmið um svokallað kynjað val (e. sexual selection) í náttúrunni. Kjörbúsvæði páfuglsins er kjarrlendi eða staktrjáasléttlendi Indlands. Þangað halda fuglarnir á næturnar til að eiga ekki á hættu að lenda í klóm rándýra, en páfuglar eru iðulega á matseðli tegunda eins og hlébarða (Panthera pardus), tígrisdýra (Panthera tigris) og úlfa (Canis lupus)